Færsluflokkur: Íþróttir

Lokamót. Mosó og Bakkakot, 9.september 2025

Tólf spilarar mættu gallvaskir til leiks í nokkuð þægilegu veðri framan af á Hlíðarvelli en ansi blautu og hvössu í Bakkakoti síðar um daginn.
Fyrir mótið lá fyrir að staðan var ansi jöfn og allt að 7 spilarar gátu hampað bikarnum í enda dagsins. Fyrirkomulag keppninnar var sú að um morguninn voru spilaðar 18 holur á Hlíðarvellinum, stórmót með tvöfaldri stigagjöf. Þau stig lögðust hreint ofan á stigatöfluna fyrir lokamótið. 24  voru þannig í boði fyrir sigurvegara, 20 fyrir annað sætið, 16 fyrir þriðja sætið og svo tveimur stigum minna fyrir hvert sæti þar fyrir neðan. Síðar um daginn yrði svo spiluð liðakeppni sex 6x2ja manna liðum í Bakkakoti, 9 holur, þar sem 12 stig voru í boði fyrir sigurliðið, 10 stig fyrir lið nr. 2 og svo koll af kolli. 
Ef sigurvegari risamótsins kæmi úr röðum efstu manna var ljóst að sá hinn sami væri með sterka stöðu fyrir liðakeppnina.
Viktor, sem var í 5. sæti fyrir lokadaginn, en samt aðeins 5 stigum frá efstu mönnum, reyndist vera í fantaformi þennan morguninn og sigraði risamótið næsta örugglega með 42 punkta. Það er 3ja hæsta punktasöfnun sumarsins á 18 holum. Aðeins Siggi (43 punktar þann 14.7) og Viktor sjálfur (45 punktar þann 19. Maí) skákuðu þessum árangi í sumar á mótaröðinni. Frábærlega gert hjá Viktori. Hergeir kom inn í öðru sæti með 37 punkta, Tóti í 3ja með 36 punkta og Gauti í 4. sætinu með 35 punkta.
Fyrir lokamótið var Viktor kominn í bílstjórasætið með 6 stiga forystu á Tóta og Gauta og sjö stiga forystu á Haffa. Það lá því ljóst fyrir liðakeppnina að einhver þessara fjögurra myndi standa uppi sem meistari. Það lá ennfremur fyrir að Viktor bjó við þann lúxus að geta verið allt að tveimur sætum neðan við helstu keppinauta sína í liðakeppninni en samt hampað titlinum.
En á lokamóti gerist oft eitthvað óvænt og viti menn Viktor sem var paraður með Sigga í liðakeppninni missti allt Mójó í Bakkakoti og spilaði afleitlega. Siggi barðist hetjulega að ná einhverjum stigum í hús fyrir makker sinn og enduðu þeir með 14 stig. Þar reyndist duga í fimmta og næst neðsta sætið í liðakeppninni. Einungis Haffi og Jói voru neðar með 13 stig. Þessi árangur þýddi að dyrnar stóðu opnar fyrir keppinauta Viktors, Tóta og Gauta að næla sér í meistaratitilinn með því að landa 1. Eða 2. Sætinu í liðakeppninni. Tvö holl í liðakeppninni höfðu ekki að neinu sérstöku að keppa, annarsvegar Tryggvi og Tommi og hinsvegar Eggert og Hanna. Pressulaus spiluðu þessi tvö holll langbest á Bakkakoti með 21 punkt (T&T) og svo 20 punkta (E&H). Frábær árangur í ljósi erfiðra veðuraðstæðna (rigning og rok). Tóti og Haukur komu svo í 3ja sætinu með 18 punkta og Gauti og Hergeir í því 4. með 15 punkta.  Þessi árangur jafnaði leikinn á toppnum en dugði Tóta og Gauta ekki til að ná Viktori.
Viktor stendur því uppi sem sigurvegari Fram mánudags mótaraðarinnar 2025. Verðskuldaður sigurvegari ef horft er til frammistöðu hans í sumar, hæsta punktaskor sumarsins (45 punktar 19. maí) og sigurvegari á Fram Open á Flúðum. Við óskum Viktori innilega til hamingju með sigurinn.
Í ræðu Haffa við mótslok minntist hann á góðan árangur margra í hópnum í sumar, Hergeir komst í einherjaklúbbinn, Viktor sigraði Fram Open punktakeppnina og Írunn sigraði höggleik kvenna á Fram Open. Þá var ótrúlegur fugl Jóa Fel beint af klettasyllu á 11. Braut á Hlíðarvelli valið atvik mótaraðarinnar 2025.
Hér að neðan eru úrslit lokamótsins og nokkrar myndir frá lokakvöldinu m.a. þar sem Haffi fráfarandi meistari klæddi Viktor sigurjakkanum góða.
Tíðindamaður þakkar fyrir sig í ár og hlakkar til keppninnar á næsta ári.
 
Meistari 2025: VIKTOR Guðmundsson
 
Úrslit dagsins:
2025-Lokamot-1
LOKASTAÐAN:
2025-Lokamot-2
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
2025-Lokamot-3
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
2025-lokamot-4
2025-lokamot-5
 
 
 
 
 
 
 

Dagskrá og fyrirkomulag lokamóts.

12 spilarar hafa meldað sig til leiks 
 
Spilað er um bikarinn í 21. skiptið.
 
Nokkrar staðreyndir um Haren bikarinn:
 
Fyrsti sigurvegarinn:  2005  Hergeir
Fjöldi meistara: 11 einstaklingar
Oftast unnið: Hergeir (4x), Haukur (3x), Halli (2x), Jón Ari (2x), Siggi Ás (2x) og Tryggvi (2x)
Núverandi meistari: 2024 Haffi (1x)
Sturluð staðreynd: Ríkjandi meistara hefur aldrei tekist að verja titilinn.
 
Það stefnir í mikla spennu á lokamótinu eftir jafnt sumar, því mjög margir spilarar verða í sjens á að landa bikarnum.
 
Lokamot_dagskra
 

 


Mót-16. Mosó. 1. september, 2025.

Sextánda og síðasta keppni sumarsins fyrir lokamót var haldin mánudaginn 1. september á Hlíðavelli. Birtu er farið að bregða snemmkvölds og því voru einungis voru spilaðar síðari níu holur vallarins. Enn og aftur var veðrið með miklum ágætum, bjart og hlýtt.
Ellefu spilarar freistuðu þess að laga stöðu sína fyrir lokamótið sem haldið verður sunnudaginn 7. September. 
 
Það sást til Tómasar á elleftu holu uppi á klettasyllu að reyna Jóa Fel twistið frá vikunni áður að smella fugli beint ofan frá klettunum. Þrátt fyrir ágæta tilraun tókst Tómasi ekki að endutaka þann ótrúlega leik, en hann fær aukastig fyrir loftfimleikana.
 
Eggert náði ótrúlegu skori, 38 högg aðeins 2 yfir pari og 23 punktar. Stórglæsilegur árangur hjá Eggert sem er á miklu flugi þessa dagana. Gauti spilaði einnig fantavel og kom inn á 21 punkti. Tóti var svo þriðji spilarinn á frábæru skori eða 20 punktum. 
 
Heildarstaðan er ansi jöfn og spennandi inn í lokamótið. Aðeins munar 5 stigum á fyrsta og fimmta sætinu. Segja má að sjö efstu spilarar séu allir í kjörstöðu til að tryggja sér sigurinn með góðri frammistöðu næsta sunnudag. Haffi og Eggert eru efstir og jafnir með 114 stig og Gauti í þriðja með 113 stig. 
36 stig eru í boði á lokadeginum og því hefur sjaldan verið jafn mikil spenna um úrslit á lokadeginum.
Fyrirkomulag lokamótsins verður sent út í sérposti á morgun.
 
ÚRSLIT:
2025-16-ASTAÐAN:
2025-16-B

Mót-15. Mosó. 25. ágúst, 2025.

Fimmtánda keppni sumarsins var haldin mánudaginn 25. ágúst á Hlíðavelli. Spilað var í 18 stiga hita en miklum gusti, sérstaklega fyrri níu holurnar (seinni níu þar sem vellinum var snúið). Leifar af hitabylgju í Evrópu sköpuðu þessar veðuraðstæður. Fámennt var þennan dag enda var stór hópur spilara í "veiðiferð" á fljótunum. Þar rann mikill bjór til sjávar ef marka má samfélagsfærslu af hleðslu í bíla í upphafi ferðarinnar.
 
Einungis fimm spilarar mættu þennan mánudag og börðust af hörku við Kára. Meiðsli settu strik sitt í reikninginn. Doktorinn sjálfur meiddist á putta á fyrri níu og þurfti aðhlynningu frá meðspilurum til að geta haldið leik áfram. Þá spilaði Tryggvi með stokkbólgna löpp annan mánudaginn í röð. Aukastig þessarar viku fara til spilara sem fara hringinn á hörkunni, Gauta og Tryggva. 
 
Árangur dagsins var í lægri kantinum enda tók glíman við suðurnesjarokið á og kostaði ófá högg. Einungis einn spilari var með yfir 30 punta. Haffi spilaði stabílt golf þrátt fyrir krefjandi aðstæður og landaði 32 punktum, þrátt fyrir að X-a 3 holur.  Eggert náði 17 punktum á seinni níu (byrjað að spila á 10. holu) í mesta rokinu en náði ekki að fylgja því eftir á fyrri níu þegar á leiðog vindinn lægði og endaði með 29 p. Tryggvi kom einnig inn á 29 p. en Eggert hreppti annað sætið á betri seinni níu.
 
Enn og aftur eru breytingar á efsta sætinu. Haffi og Tóti hafa skipst á að leiða keppnina undanfarnar vikur og nú náði Haffi að komast á toppinn aftur.
Aðeins ein mánudagskeppni er eftir fyrir lokamótið. Líklega verður þar aðeins um 9 holur (seinni níu) að ræða mánudaginn 1. Sept. Það eru síðustu forvöð að bæta stöðu sína í listanum fyrir lokamótið, sem er til skoðunar að halda laugardaginn 20. sept.
 
ÚRSLIT:
2025-15-ASTAÐAN:
2025-15-B

Mót-14. Mosó. 18. ágúst, 2025.

Fjórtánda keppni sumarsins var haldin mánudaginn 18. ágúst á Hlíðavelli við golfaðstæður eins og þær gerast bestar. Frábært verður í kjölfar talsveðrar rigningar, hlýtt og bjart, blautur völlur og flatirnar tóku vel við innáhöggum. Völlurinn sjálfur er í frábæru standi eftir gott sumar og góða vallarhirðu.
Árangur þeirra átta spilara sem mættu til að keppast um stigin létu heldur ekki á sér standa. Niðurstaðan varð ekki bara besta heldur langbesta meðalskor sumarsins, 34,9 punktar að meðaltali. Enginn spilaði undir 30 p. og hæsta skor var 40 p. 
 
Jói Fel mætti til leiks í sérmerktri Fram treyju tileinkaðri minningu Bryndísar Klöru og leit vel út á fyrsta teig. Hann hefur verið að ströggla mikið með bakið í sumar en fékk núna nýjar pillur hjá doksa og þær svínvirkuðu. 40 punktar í hús hjá JF og þar af setti hann einhvern ótrúlegasta fugl sumarsins á 11. Braut þar sem hann sló þriðja högg uppi á klettunum vinstra megin við brautina, ca. 50 metra frá pinna. Boltinn sveif glæsilega að holu, lenti rétt við pinna og beint ofaní. Jói fær aukastig fyrir outfittið og annað aukastig fyrir þennan glæsilega fugl. 
 
Fleiri spiluðu vel þennan dag. Í sætum tvö og þrjú voru Tóti (39 p.) og Hergeir (37 p.) en þeir spiluðu jafnt og flott golf allan hringinn.
 
Enn og aftur eru sviftingar í heildarstigatöflunni. Haffi stoppaði stutt á toppnum og nú tyllir Tóti sér í efsta sætið en stór hópur er þar skammt undan. Það er nokkuð ljóst að það stefnir í spennandi lokamót í ár þar sem fjöldi spilara á góðan sjens á bikarnum og jakkanum eftirsótta.
 
ÚRSLIT:
2025-14-ASTAÐAN:
2025-14-B

Mót-13. Mosó. 11. ágúst, 2025.

Ef einhver trúir ekki álögum á tölunni 13 þá gæti það hafa breyst síðasta mánudag. Þrettánda keppni sumarsins var sú fámennasta til þessa, aðeins fimm spilarar mættu til leiks.  Ástæðan var mögulega sú að það var ekta íslenskt skítaveður, rok og rigning.  Það fór líka svo að ákveðið var að láta slag standa eftir fyrri níu holurnar, því menn voru þá þegar orðnir gegnblautir og hraktir. Þetta var samanleg ákvörðun hópsins.
 
Skorið á fyrri níu var það lakasta sem hefur sést í sumar, aðeins 11,8 punktar að meðaltali.
 
Einn spilari virtist þó nokkuð ónæmur fyrir veðuraðstæðum þennan dag (honum sjálfum til mikillar furðu) og skilaði 16 punktum í hús. Haffi, sem er ríkjandi meistari, landaði þarna öðrum sigrinum í röð á Hliðarvelli og nánast með sömu uppskrift og vikuna áður, með því að spila á bogey. Eftir að hafa X-að fyrstu holuna þá spilaði hann næstu átta holur á sínu pari, 6x holur á bogey, eina á pari og eina á double bogey.  Þetta hljómar kannski ekkert afrek en þeir sem voru á staðnum og voru að kljást við vindinn og rigninguna geta vitnað um það að það var ekki auðvelt að spila gott golf þennan eftirmiðdag. Gauti heldur einnig áfram að spila vel og kom annar á 13 punktum.
 
Enn breytist staðan í heildarstigakeppninni.  Haffi er nú orðinn efstur og Tóti í öðru sæti. Átta spilarar hafa nú náð því að spila 10 keppnir í sumar og fer leikurinn að snúast um að losa út lélegu mót sumarsins í þeim keppnum sem eftir eru fram að lokamóti.
 
ÚRSLIT:
2025-13-aSTAÐAN:
2025-13-B

Mót-12. Flúðir. 8. ágúst, 2025.

Fram open var í ár haldið á Flúðum og að venju er keppnin hluti af mánudags mótaröðinni og það sem meira er stórmót að auki. Þetta var tólfta keppni sumarsins og mættu 10 spilarar til leiks. Það var allhvasst á Flúðum þennan dag en sólríkt og þokkalegur hiti. Völlurinn fyrirgefur ekki mikið og þurftu spilarar því að kljást við vindinn ásamt því að halda boltanum á braut. Skorið var ekki sérlega hátt (28,5) miðað við venjulegt skor á mánudagsmótaröðinni, en þegar upp var staðið og allt var talið reyndist skor okkar spilara heldur betur standast samanburð við skor annarra keppenda á mótinu.
 
Mánudagsmótaröðin skilaði þremur vinningum í hús. Viktor gerði sér lítið fyrir og vann punktakeppi karla á 35 p. Glæsilegur árangur það. Tóti var í 7. Sæti með 33 punkta og Eggert í 12. sæti með 31 punkt. Þrír af tíu spilurum okkar (30%) voru því meðal topp 15% hæstu í mótinu í punktakeppni. Að auki hlaut Írunn 1. sæti í höggleik kvenna. Þá rötuðu ein nándarverðlaun í hús, þar sem Viktor setti 60 cm frá pinna á einni par 3 holunni (og setti niður fugl).  Viktor og Írunn fá aukapunkt fyrir frammistöðuna.
 
Niðurstaðan er ótvíræð; mánudagsmótaröðin er sko engin "mánudags" mótaröð heldur bísna sterk keppni sem við getum verið stolt af. 
 
Þessi úrslit breyta heldur betur stöðunni í heildarstigakeppninni.  Það munar aðeins 4 stigum á 5 efstu mönnum. Hergeir sem leiddi fyrir þessa keppni var erlendis og því fjærri góðu gamni. Viktor og Tóti eru núna efstir og jafnir með 100 stig, Haffi með 99 stig og Tryggvi og Hergeir þvínæst með 96 stig. Fleiri eru að bætast í hópinn að hafa lokið 10 keppnum og pakkinn því að þéttast heldur betur.
 
ÚRSLIT:
2025-12-aSTAÐAN:
2025-12-b

Mót-11. Mosó. 4. ágúst, 2025.

Ellefta og fámennasta keppni sumarsins fór fram í frábæru veðri í lok Verzlunarmannahelgarinnar á Hlíðarvelli. Þeir sem mættu til leiks voru ekki sviknir af aðstæðunum því eftir rok og rigningu um helgina brast á æðislegt veður seinnipart mánudagsins. Völlurinn var enn rakur og flatirnar tóku því vel við. Spilararnir sjö nýttu sér vallaraðstæður vel og úr varð hæsta meðalskor á mótaröðinni í ár (31,1 punktur).
 
Sumir spiluðu hreint frábærlega á mánudaginn. Hergeir spilaði fyrri níu á 2 yfir pari (7x pör takk fyrir og 2x skollar) og 21 punktur, 16 punktar á seinni níu skilaði honum 37 punktum. Eggert sýndi snilli sína á seinni níu með 5x pörum og 4x skollum og 21 punkur í hús á seinni níu og 34 punktar alls. Þrátt fyrir þessa snilld tókst Hafsteini að skáka þeim félögum og öðrum spilurum dagsins og hreppa efsta sætið, með einhverri mestu jafnaðar spilamennsku sem sést hefur á vellinum,  2 pör, 2 double bogey og 14 bogey. Eins og einhver sagði "leiðinlegt golf er gott golf!". Hafsteinn spilaði fyrri níu á 18 punktum og seinni níu á 19 punktum, samtals 37 punktar. 
 
Skondið atvik varð á 13 flöt (par 5) þar sem Hergeir púttaði fyrir fugli af ca. 2ja metra færi. Hann var mjög afslappaður yfir púttinu og setti boltann örugglega ofaní án allra fagnaðarláta (eini fugl dagsins). Þegar frændinn óskaði Hergeiri til hamingju með fuglinn þá kom undrunarsvipur á Hergeir sem hélt að hann væri að pútta fyrir pari. Flottur fugl í höfn  hjá Hergeiri og það er kannski bara betra að vita ekki að maður sé að pútta fyrir fugli laughing.
 
Í heildarstigakeppninni er Hergeir í forystu, Tryggvi í öðru og Hafsteinn er kominn upp í þriðja sætið. Bæði  Haffi og Hergeir hafa spilað 11 keppnir og fellur því slakasti árangur þeirra út fyrir skori gærdagsins. Nokkrir aðrir spilarar (4x) eru með 9 keppnir. Sumir eiga fleiri keppnir inni og eiga það reyndar flestir sameiginlegt að vera fyrir neðan miðbik töflunnar eins og hún stendur í dag. Það eru því góð tækifæri fyrir marga spilara að blanda sér í baráttuna um bikarinn. Stærsta helgi sumarsins er framundan með stórmóti á föstudaginn (Fram open á Flúðum) og svo mánudagsmóti í kjölfarið. Þrefaldir vinningspunktar í boði fyrir þá sem hitta á réttan takt á næstu dögum.
 
ÚRSLIT:
2025-11-A
STAÐAN:
2025-11-B

Mót-10. Mosó. 28. júlí, 2025.

Tíunda keppni sumarsins fór fram í roki og rigningu á Hlíðarvelli síðasta mánudag (28. Júlí). Þrátt fyrir leiðindaveður mættu níu spilarar til leiks og létu ekki veðrið á sig fá. Hafandi sagt það þá var skorið ansi lágt eða aðeins 26,4 punktar að meðaltali. Það er lægsta meðalskor sumarsins og nokkru verra en í strekkingnum í Grindavík (27,7) fyrr í sumar til samanburðar. Sumir kunna þó vel við sig í roki og rigningu.
 
Það er óvanalegt að sjá hærra meðalskor á fyrri níu (13,3 p.) vs seinni níu (13,1 p.) eins og reyndin var í þetta skiptið. 
 
Læknirinn kom á óvart og sigraði veðrið og vallaraðstæður og náði 36 punktum. Hrikalega vel gert. Gauti hefur verið að laumast upp töfluna með leynd (svarti hesturinn) og er nú kominn í toppbaráttuna. Hergeir spilar sjaldan betur en í roki og rigningu og skilaði 34 punktum í hús. Viktor var svo með 31 punkt en aðrir voru með undir 30 punktum.
 
Hergeir átti stórkostlegt innáhögg á holu 1, setti eitt fet frá holu af ca 150 metra færi í hörkuvindi. Auðveldur fugl í höfn og 4 punktar eftir eina holu. Svona glæsihögg verðskuldar aukastig.
 
Í heildarstigakeppninni er Hergeir núna kominn í forystu, Gauti er kominn í annað sætið og Tryggvi í því þriðja. Þess má geta að nú eru fyrstu menn, frændurnir Haffi og Hergeir, komnir með 10 keppnir undir belti. Heildarstigaskor byggir á 10 bestu keppnunum og því fer pakkinn að þéttast á næstunni. Ef litið er til hæsta meðalskors pr. Keppni breytist röðun efstu manna á þann hátt að TT er efstur (10,1 p), Gauti og Tóti jafnir í öðru (9,1 p) og Hergeir í fjórða (8,7 p.). 
 
ÚRSLIT:
2025-10-ASTAÐAN:
2025-10-B

Mót-9. Brautarholt. 21. júlí, 2025.

Áfram mallar mótaröðin og nú er komið að umfjöllun um níunda mót sumarsins sem var haldið 21. júlí á nývígðum 18 holu velli í Brautarholti.
Áður höfðu 12 holur verið spilaðar á Brautarholti en nú eru 6 nýjar brautir komnar til viðbótar. Og þvílíkar brautir og þvílíkur völlur. Ég held að ég tali fyrir hönd margra að þarna sé kominn flottasti 18 holu völlur landsins. Og í tilefni þess var skellt í Stórmót. 
Vallaraðstæður voru góðar; hægviðri, nokkuð hlýtt en þykk gosmóða lá yfir höfuðborgarsvæðinu þennan mánudag. Brautarholtið er engu að síður erfiður völlur og það sást á skorinu því meðalpunktasöfnun spilara var 28,7 p eða tæpum 6 punktum lægri en vikuna áður á Hlíðarvelli.
 
Þrátt fyrir mismunandi skor þá skemmtu menn sér hið besta þetta fallega sumar síðaftan utan að það fréttist af einum spilara sem flýtti sér af vettvangi eftir hringinn þannig að hann myndi ekki drepa neinn sökum svengdar. Við nefnum engin nöfn en málaranestið hefur greinilega klárast snemma þennan daginn laughing.
 
11 spilarar voru mættir til leiks og segja má að úrslitin hafi ráðist á seinni níu holunum og þar með sex nýju holunum. Haffi og Viktor  leiddu eftir fyrri níu holurnar með 20 og 18 punkta en skitu rækilega í brók á seinni níu og gáfu eftir toppsætin. Tommi, Gauti og Hergeir héldu hins vegar vel á spöðunum á seinni níu og löndu þremur efstu sætunum. Tómas spilaði fanta vel 35 punktum. Gauti og Hergeir voru jafnir með 33 punkta en Gauti hafði betur á seinni níu. 
 
Þar sem tveir efstu menn mótaraðarinnar eftir átta umferðir voru fjarverandi var viðbúið að leikar myndu jafnast eitthvað eftir þessa keppni. Tryggvi leiðir mótið ennþá en Hergeir er hástökkvari vikunnar og er kominn í annað sætið fast á hæla Tryggva. Haffi og Gauti eru síðan jafnir í 3ja sæti.  Enn eru allmörg mót eftir á sumrinu og því næg tækifæri til að blanda sér í baráttuna.
 
ÚRSLIT:
2025-9-ASTAÐAN:
2025-9-B

 


Næsta síða »

Höfundur

Haraldur Þór
Haraldur Þór

Um bloggið

Golfferð til Haren

Tónlistarspilari

a_Þórormur - Traustur_vinur

Nýjustu myndböndin

20190908_204608

VID-20160924-WA0013

VID-20160919-WA0023

VID-20160922-WA0008

VID-20160920-WA0027

VID-20160922-WA0005

Driverinn

Hátt og stutt

Himmi beini

Heatland course

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • 2025-lokamot-5
  • 2025-lokamot-4
  • 2025-Lokamot-3
  • 2025-Lokamot-2
  • 2025-Lokamot-1
  • Lokamot dagskra
  • 2025-16-B
  • 2025-16-A
  • 2025-15-B
  • 2025-15-A

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband